Útgefið efni

Greinar

Menntunarsjóður SA og STF hefur úthlutað styrkjum frá síðustu áramótum. Ánægjulegt er hvað margir stjórnendur eru að sækja sér endurmenntun. Þetta eru dýr nám sem eykur möguleika þeirra á vinnumarkaði. Við finnum að umsækenndur um styrk til endurmenntunar hefðu gjarnan viljað að styrkurinn væri hærri, en engu að síður eru þeir þakklátir fyrir það sem við erum að gera.   Ákveðið var að fara varlega af stað með upphæð styrkja og auka heldur í eftir fjárhagslegri getu sjóðsins. Vonast er til að við endurmat sjóðsins um áramót verði hægt að auka styrkupphæðir. Það er nýmæli að fyrirtæki geta sótt um námstyrki úr þessum sjóði ef þau senda stjórnendum til náms sem eykur hæfni þeirra í starfi. Það þarf að kynna fyrirtækjum  þennan möguleika, skilyrði fyrir styrk er að viðkomandi fyrirtæki greiði endurmenntunargjald til STF vegna þessara einstaklinga. Ásókn í eldri menntunarsjóð STF hefur verið jöfn og góð. Aukning er í starfstengt nám og hefur verið samin reglugerð fyrir menntunasjóðinn, spurning hvort ekki eigi að útvíkka reglugerð hans þannig að hún taki víðara svið. Reglugerðir beggja sjóða verða endurskoðaðar um áramót, vonandi verður í framhaldinu hægt að mæta kröfu félagsmanna um hærri menntunarstyrki.

Kveðja,

Jóhann Baldursson,

framkvæmdastjóri STF.

 

Það er ekki vandalaust að taka út séreignasparnað ef viðkomandi er atvinnulaus. Þetta er sagt að gefnu tilefni. Félagsmaður sem verið hefur atvinnulaus um nokkurt skeið hugðist létta mánaðarlegar greiðslur og tekur út séreignasparnaðinn til niðurgreiðslu á láni. Hver króna sparnaðarins sem ekki fór í skattinn var notuð til að niðurgreiða höfuðstól á íbúðaláni. Í atvinnuleysi er úttekinn séreignasparnaður flokkaður sem tekjur og getur því valdið skerðingu bótagreiðslna. Í þessu tilfelli verða bætur skertar um 25% næstu mánuði, skerðing hefði orðið meiri, en lög um atvinnuleysisbætur leyfa ekki hærri skerðingu. Þeir sem eru í vinnu, 60 ára og eldri geta tekið út séreign sína til seinni tíma nota án vandræða en atvinnulausir ekki. Send var fyrirspurn til Vinnumálastofnunar og spurt hvað miklar tekjur má hafa án þess að til skerðingar komi.

Í svari frá Vinnumálastofnun segir: "Það má hafa tekjur upp að frítekjumarkinu án þess að það hafi áhrif á bætur þó þarf að gefa þær tekjur upp til okkar. Ef fólk tekur út séreignasparnað skv. lögum nr. 13/2009 þá skerða þær tekjur ekki atvinnuleysisbætur. Ef fólk er að taka út séreignasparnað eins og það gat gert fyrir þessa lagabreytingu þá munu þær tekjur skerða bæturnar í þeim mánuði sem sparnaðurinn er tekinn út".

Þetta verða menn að hafa í huga ef til atvinnumissis kemur, eins er gott að skoða vef Vinnumálastofnunnar www.vinnumalastofnun.is og kynna sér hvað þar er í boði.

Kveðja,

Kristján Örn Jónsson forseti/framkvæmdastjóri VSSÍ.

03
september

Allar helstu reglur og skilyrði varðandi atvinnuleysisbætur er að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Á aðalfundi Verkstjórafélags Snæfellsness sem haldinn var 8. október 2003 varð mikil umræða um lífeyrissjóði og þann möguleika að hjón/sambýlisfólk jafni á milli sín lífeyrisréttindum. Farið var yfir skilyrði þessa möguleika, kosti þess og galla. Var það niðurstaða fundarins að rýmka þyrfti skilyrði þess að fá þessa skiptingu og að "tímafresturinn" þ.e. að það þyrfti að óska eftir slíku a.m.k. sjö árum fyrir heimila töku lífeyris væri of langur. Þannig væri það hart fyrir sextugan mann með yngri konu, að vera búinn að missa af þessum möguleika. Það varð álit fundarmanna að þessi möguleiki væri ekki nægilega vel kynntur og þyrfti að koma upplýsingum um þennan möguleika betur á framfæri við félagsmenn.