Útgefið efni

Greinar

Fræðsla verkstjóra og annarra millistjórnenda

- stutt yfirlit yfir þróun námsins og afrakstur

 

Ávarp flutt 16.08.2019 við útskrift nema úr 6. lotu Stjórnendafræðslu SA og STF

----------

Með þessari útskrift hér í dag eru runnin upp merk tímamót eftir þrettán ára umbóta-starf á námi og kennsluaðferðum fyrir verkstjóra og aðra millistjórnendur í íslensku atvinnulífi.

Upphafsins má leita til ársins 1962 þegar lög um fræðslu verkstjóra voru samþykkt á alþingi. Verkstjóranámskeiðin voru síðan haldin í áratugi hjá Iðntæknistofnun og Nýsköpunarmiðstöð.

Um og eftir síðustu aldamót höfðum við Kristján Örn Jónsson - fyrrum forseti VSSÍ - talað um það í stjórn Verkstjórnarfræðslunnar að breyta til og bjóða upp á endurnýjað nám og aðferðir. Okkur grunaði að gera mætti betur bæði hvað varðaði innihald námsins og kennsluaðferðir. Satt að segja fengum við heldur dræmar undirtektir og jafnvel mótmæli við svona glannaskap enda allir þátttakendur að sögn ánægðir með námskeiðin og ekki ástæða til breytinga. En við félagarnir héldum áfram að tuða um endurbætur enda þrjóskir að eðlisfari!

Árið 2007 var gerð ítarleg greining af Verkstjórasambandinu og Iðunni fræðslusetri iðnaðarins á fræðsluþörf verkstjóra og settar fram tillögur um aðgerðir.

Margar góðar ábendingar komu fram í skýrslu þessari frá verkstjórum og fyrirtækjunum m.a.: mikil þörf á að bæta fræðslu verkstjóra til þess að gera fyrirtækjunum betur kleift að standast samkeppni - nauðsynlegt að námsleiðir og útfærsla þeirra taki mið af mismunandi aðstæðum verkstjóra - m.a. landfræðilegum - að miða fræðsluna við hópverkefni þar sem fengist er við raunveruleg viðfangsefni í daglegu starfi verkstjóra

Þarna voru lagðar merkilegar línur sem nýttust síðar.

Síðan gerðist ekkert meir enda skortur á fjármagni og kannski áhuga til að hrinda hlutunum í framkvæmd.

Um mitt ár 2008 var í tengslum við kjarasamninga við Verkstjórasambandið (eins og það hét þá) ákveðið að stofna Starfsmenntasjóð SA og VSSÍ.

Í samþykktum sjóðsins var - auk þess að styrkja verkstjóra til náms - merkilegt ákvæði um að leyfilegt væri að styrkja námsefnisgerð og nám sem hvergi væri í boði en gæti gagnast verkstjórum og öðrum millistjórnendum til að bæta hæfni sína.

Þetta ákvæði í reglum sjóðsins var lykilatriði með hliðsjón af því sem síðar kom. Þar með var sjóðnum líka lagt á herðar að meta hvort námsefni og/eða námsframboð, sem er á boðstólum hverju sinni, fullnægi þeim kröfum sem gera verður til náms og endurmenntunar verkstjóra.

Þarna er komið að kjarnaatriði: að hafa á hreinu þær kröfur sem leggja þarf til grundvallar í námi verkstjóra. En hver mótar þessar kröfur og fylgir þeim síðan eftir í raun?

Svar okkar í stjórn Verkstjórnarfræðslunnar var: atvinnulífið sjálft. Ekki skólar, ekki stofnanir og ekki einstaka ráðgjafar úti í bæ - hversu ágætir sem allir þessir aðilar eru. Þeirra sérhæfing nýtist þó sannarlega ef atvinnulífið veit sjálft hvað það vill í þessum efnum. Samkeppnishæfnin ræðst nefnilega           í fyrirtækjunum sjálfum og hvergi annarsstaðar. Þau geta ekki látið kyrrt liggja og bent ásakandi á aðra ef ekki er í boði nám og þjálfun fyrir þá lykilstarfsmenn sem verkstjórar eru í hverju fyrirtæki. Atvinnulífið, eða samtök þeirra, verður sjálft að axla ábyrgð, skilgreina þarfir sínar hvað varðar hæfni millistjórnenda og sjá til þess í samstarfi við aðra að þeim sé sinnt.

Leið svo fram til ársins 2011 og lítið gerðist.

Þá leitaði stjórn Starfsmenntasjóðsins til Verkstjórnarfræðslunnar, Nýsköpunarmiðstöðvar, Verkstjórasambandsins og Samtaka atvinnulífsins um það hvort ástæða væri til að stofna sérstakt verkefni til að skilgreina með heildstæðum hætti hvernig fræðsluþörf verkstjóra og annarra millistjórnenda yrði best fyrir komið - bæði hvað varðar innihald og framkvæmd.

Allir þessir aðilar brugðust vel við og í febrúar árið 2011 var stofnað verkefnið VS-2011 sem skyldi endurskoða þekkingarmiðlun Verkstjórnarfræðslunnar.

Þetta var forverkefni sem ætlað var að setja hugsanlegu heildarverkefni um nauðsýnlegt fræðsluframboð fyrir millistjórnendur markmið, skilgreina innihald og uppbyggingu þess og skoða hvernig best yrði staðið að kennslunni sjálfri. Auk þess yrðu mótaðir mælikvarðar um árangur, sýnt fram á að verkefnið væri raunhæft og ákveða tímasetningar verkþátta, áfanga og verklok í samstarfi við þá sem vinna myndu heildarverkefnið ef að því kæmi. Sem sagt: forverkefni þar sem gerð yrði áætlun um áframhaldandi vinnu við útfærslu og hún verðlögð. Á þeim grundvelli var síðan sótt um styrk til Starfsmenntasjóðsins og umsóknin samþykkt samhljóða.

Hófst nú sú vinna undir styrkri verkstjórn Gylfa Einarssonar sem var ráðinn til þess að halda utan um allt þetta verk og undirbúa framvindu þess milli funda sem haldnir voru hálfs mánaðarlega allt til miðs árs 2013. Þá var niðurstaðan birt í yfir 230 síðna handbók verkefnisstjórnar undir heitinu "VS-2011 - VERKSTJÓRN - þekking, leikni hæfni."

Þarna voru settar fram mjög ítarlegar kröfur um inntak námskeiða - eða lotna eins og þá var farið að kalla námið - með viðmiðunarrömmum um þekkingu og leikni sem leitast skyldi við að miðla og þjálfa í hverri lotu námsins. Jafnframt var þar skilgreind hæfni nemenda sem þeir ættu að öðlast í námi sínu, auðvitað að því gefnu að þeir tileinki sér það sem fyrir er lagt.

Þarna var sem sagt komið að tímamótum og því taldi ég, sem fulltrúi Samtaka atvinnulífsins í þessu starfi öllu, tímabært að bera fyrirliggjandi stefnumótun, námsinnihald og námsaðferðir undir þá sem ábyrgð bera á þessum málum í stærstu aðildarfyrirtækjum Samtaka atvinnulífsins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem þá sá um fræðslu- og menntamál á þeim bæ - brá skjótt við og efnt var til fjölmenns fundar hjá SA þar sem ég útskýrði niðurstöðurnar og fyrirliggjandi tillögur um innihald námsins og útfærslu. Ég leitaði álits fundarmanna - hvort við værum að þeirra mati á réttri leið og hvort við ættum að halda áfram og klára dæmið á þessum nótum. Skemmst er frá því að segja að tillögurnar fengu mjög góðar viðtökur og lagt til að hafist yrði handa um að móta námsframboð á þessum grundvelli.  

Eftir þetta var gerð ný verkáætlun sem nefnd var VS-2014. Þá fólst verkefnið í því að ráða sérfræðinga til starfa sem ætlað var að hanna námsefni í samræmi við uppskriftir hvers áfanga í VS-2011 og einnig að kanna og meta kosti við að miðla því til nemenda. Þetta var vissulega mjög yfirgripsmikið verkefni enda fólst það í því að semja námsefni fyrir allar loturnar og ákveða hvernig því skyldi komið á framfæri við nemendur.

Og enn nutum við góðrar fjárhagsaðstoðar Starfsmenntasjóðsins enda hafði verið sýnt fram á að það nám sem hér var verið að leggja upp með var í samræmi við kröfur atvinnulífsins auk þess sem það var hvergi annarsstaðar á boðstólum sem ein samfelld heild.

Liðu nú mánuðir og ár og gríðarleg vinna framkvæmd við þetta göfuga verkefni þar sem margir sérfræðingar komu við sögu bæði úr skólum, stofnunum og sjálfstætt starfandi. Og enn hafði Gylfi Einarsson yfirstjórn með framvindu verkefnisins í nánu samstarfi við verkefnisstjórn.

Eitt af því sem ákveðið var á þessum tíma var að allt námið yrði fjarnám enda voru þá að koma í ljós möguleikar í þeim efnum sem breyttu öllu. Var þá hægt að koma til móts við óskir um að engu skipti hvar á landinu nemendur væru staðsettir - allir sætu við sama borð en ynnu líka saman í hópum eins og menn gerðu sér vonir um í upphafi þessa starfs. Þar að auki væri hægur vandi fyrir starfandi verkstjóra að sæta lagi í dagsins önn þegar þeir gætu sinnt þessu námi auk þess frítíma sem þeir hlytu að nýta með.

En svo kom að því árið 2015 að fyrsta námskeiðið í fyrstu lotu fór af stað - undir stjórn Kristjáns Óskarssonar hjá Nýsköpunarmiðstöð. Þá varð okkur strax ljóst að við höfðum hitt naglann á höfuðið - bæði hvað varðar innihald og framsetningu. Þetta sást af viðbrögðum fyrstu nemenda sem lýstu því flestir strax yfir að þeir vildu halda áfram í næstu lotum. Á þessum tíma var jafnframt unnið að því að klára námslýsingar fyrir næstu lotur og þær síðan teknar í gagnið og kenndar eftir því sem á leið.

Nú, á þessu herrans ári 2019, er búið að koma málum þannig fyrir að kennslan er farin frá Nýsköpunarmiðstöð og til Háskólans á Akureyri.   Allt það samstarf er með miklum ágætum og er það vissulega fagnaðarefni.

Við settum okkur í upphafi það markmið að keyra allar loturnar amk. einu sinni, laga það sem laga þyrfti í hverri þeirra í samvinnu við kennara og bæta um betur ef svo bar undir. Keyra þær svo aftur áður en við gætum sagt að allt væri með besta móti - bæði hvað varðar námsefnið sjálft og framsetningu þess.

Og með þessari útskrift hér í dag er sú stund runnin upp hvað allar loturnar sex varðar. Af því leiðir að þessi dagur er sannarlega tímamót á þessu þrettán ára ferli.

Sjálfur fullyrði ég að allt þetta mikla starf hafi nú þegar sannað gildi sitt fyrir íslenskt atvinnulíf og alla millistjórnendur. En þetta er þó ekki nema byrjunin því enda þótt búið sé að varða veginn þá þarf alltaf að setja nýjar steina í vörðurnar ef við ætlum að ná því marki að vera ávallt samkeppnishæf á alþjóða mörkuðum og geta á þeim grundvelli boðið landsmönnum upp á bestu lífskjör.

Nú liggur afraksturinn fyrir:

  1. Vel unnin þarfagreining atvinnulífs og verkstjóra á menntunarþörf milli- stjórnenda í nútíma samkeppnisumhverfi
  2. Viðamikið, vel uppbyggt og vandað námsefni í samræmi við skilgreindar námskröfur atvinnulífsins
  3. Afbragðs kennarar sem sýnt hafa mikla færni við að koma námsefninu á    framfæri við nemendur, þjálfa þá og gera enn hæfari í mikilvægu starfi
  4. Nýting frábærrar kennslutækni sem tryggir nemendum gott aðgengi að náminu án tillits til hvar á landinu þeir búa

Á þessum tímamótum er því eðlilegt að við Kristján Örn vinur minn spyrjum okkur að því hvort fyrirliggjandi afrakstur sé í samræmi við þær væntingar sem við bárum í brjósti fyrir hart nær tuttugu árum þegar við byrjuðum að tala um endurnýjun náms og námsaðferða innan stjórnar Verkstjórnarfræðslunnar. Að öllu skoðuðu er óhætt að fullyrða að innihald núverandi náms og kennsluaðferðir hafi þegar farið langt fram úr okkar villtustu draumum og sannað rækilega að breytingar geta hæglega leitt til framfara!

Um leið og ég óska ykkur sem brautskrást hér í dag hjartanlega til hamingju þá fagna ég því mjög að nú er í boði vænlegur kostur til að styrkja stöðu og færni verkstjóra og annarra millistjórnenda sem gegna sannarlega lykilhlutverki í fyrirtækjarekstri nútímans og til allrar framtíðar.

Ingólfur Sverrissson

(fyrrverandi fulltrúi Samtaka atvinnulífsins í stjórn Verkstjórnarfræðslunnar.)

Kjarasamningur milli Samband stjórnendafélaga og Samtaka atvinnulífsins
 -Samantekt-

Hér er að finna ný undirritaða kjarasamninga frá 18. júní 2019

Með samkomulagi árið 2008 milli Samtaka atvinnulífsins og Verkstjórasambands Íslands var stofnaður Starfsmenntasjóður þessara aðila. Með því var stigið mikilvægt skref til að bæta úr brýnni þörf á endurmenntun fyrir millistjórnendur í þessu landi. Í ljós hefur komið að Ísland hefur dregist aftur úr öðrum hvað varðar stjórnun í fyrirtækjum og á það ekki síst við um verkstjóra sem því miður hafa setið utan garðs hvað varðar alla grunn- og endurmenntun undanfarið á meðan aðrir starfshópar hafa fengið tækifæri sem hafa komið þeim og fyrirtækjunum vel. Enda þótt Verkstjórnarfræðslan á Keldnaholti hafið að mörgu leyti gegnt sínu hlutverki allvel í mörg ár þá þarf að efla hana mikið til þess að hún og aðrir sem sinna fræðslu verkstjóra geti staðið undir væntingum í nútíma samfélagi þar sem allt gengur út á að standast alþjóða samkeppni. Þess vegna var stofnun Starfsmenntasjóðsins merkur áfangi sem forstöðumenn málm- og véltæknifyrirtækja eru hvatir til að nýta sér til að auka hæfni verkstjóra sinna.

Marmið sjóðsins er að stuðla að því að starfandi verkstjórum bjóðist heilstæð grunn- og endurmenntun sem uppfyllir þekkingarkröfur sem verkstjórar þurfa að búa yfir á hverjum tíma. Þessar kröfur eru skilgreindar í reglum sjóðsins, sem setta voru saman til að meta styrkhæfni námsframboðs. Þar eru tíundaðar þær hæfnikröfur sem lagðar eru til grundvallar þegar úrskurðað er hvort námskeið sú styrkhæf. Samkvæmt vinnureglum sjóðsins skal umsækjandi skoða hvort tiltekið námskeið, sem hann hefur hug á að sækja, sé styrkhæft áður en hann gengur frá umsókn. Í þessum ruglum er einnig getið um hverjir eiga rétt á styrk, hámark kostnaðar sem sjóðurinn greiðir fyrir þátttöku á námskeiðum og fleiri atriði.

Þeim sem hyggjast sækja um styrk úr sjóðnum er bent á að kynna sér framangreindar reglur og sækja síðan um á eyðublaði sem finna má hér.

 

Ingólfur Sverrisson. 2010. Endurmenntun verkstjóra í brennidepli. Málmiðnaður, Fréttaauki íslensk iðnaðar. 1.tbl. 16.árg

Í reglugerð Starfsmenntasjóðs SA og STF er gert ráð fyrir að fyrirtæki sem greiða starfsmenntagjald til STF og hafi gert að lágmarki í sex mánuði af viðkomandi einstaklingi  geti sótt um styrk til sjóðsins ef verið er að endurmennta verkstjóra-/stjórnanda og gera að betri stjórnendum. Þetta hefur fallið í góðan jarðveg, nokkuð er um að fyrirtæki hafa nýtt sér þennan möguleika. Fyrirtæki sem það vilja geta senda námskrá námskeiðs og kennitölu þess sem sótt er um til STF.  Þar er umsóknin er metin hvort hún sé styrk hæf og henni svarað.  Eru forráðamenn fyrirtækja hvattir til að kynna sér þennan möguleika til endurmenntunar stjórnenda sinna.   

 Kristján Örn Jónsson,

Framkvæmdastjóri VSSÍ.